Beint į leišarkerfi vefsins

Fréttir tengdar www.sprotar.is

 


Könnun um aðgengi að fjármagni og fjárfestingaleiðum lögð fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki

09. nóvember 2014

Í tengslum við ráðstefnu um aðgengi íslenskra nýsköpunar- og sprotafyrirtækja að fjármagnisem haldin verður 11. nóvember næstkomandi framkvæmdi Enterprise Europe Network rannsókn sem náði til þeirra fyrirtækja sem skráð eru á vefsíðuna http://www.sprotar.is/. Vefsíðan Sprotar.is sem rekin er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands,  er upplýsinga­veit­a og einn helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra. Vefurinn inniheldur gagnlegar upplýsingar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsemi þeirra og hefur það að markmiði að gera sprotafyrirtæki sýnilegri gagnvart ólíkum hagsmunaaðilum í samfélaginu.

 

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna ýmis mál tengd fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og byggja svo erindi ráðstefnunnar á þeim svörum og þörfum sem könnunin leiddi í ljós. Könnunin var send á 137 fyrirtæki og var svarhlutfallið 36%. 65% af þeim sem svöruðu starfa á sviðum upplýsingatækni og jafnhátt hlutfall er enn með sína vöru/þjónustu í þróun.

 

Helstu niðurstöður voru þessar:

  • 90% fyrirtækjanna eru opin fyrir fjárfestingarviðræður
  • Flest þeirra hafa fengið fjármagn frá opinberum aðilum eða lánastofnunum til að fjármagna sig
  • 82% fyrirtækjanna hafa áhuga á fjárfestingu frá opinberum sjóðum en lítil hluti þeirra hefur verið í viðræðum eða fengið fjárfestingu frá slíkum sjóðum
  • Fáir hafa fengið fjármagn frá einkaaðilum en 32% fyrirtækjanna hafa áhuga á því
  • Frumkvöðlar horfa hýrum augum til fjármögnunarsjóða í einkageiranum, en 70% þeirra sem svöruðu spurningunni hafa áhuga á viðræðum við slíka sjóði. Aðeins átta fyrirtæki af þeim sem svöruðu hafa fengið fjármagn frá slíkum sjóðum eða eru í viðræðum við þá um fjármagn
  • Mikill áhugi er á því að tala við einstaka fjárfesta en 73% aðspurðra hafa áhuga á því. Aðeins níu fyrirtæki hafa fengið fjármagn frá slíkum fjárfestum og einn var í viðræðum er könnunin var lögð fyrir
  • Áhugi á að leita til lánastofnanna mælist nokkur en 48% svarenda segjast hafa áhuga á því
  • Nærri helmingur frumkvöðlanna eru á þeirri skoðun að auka þurfi upplýsingar um það hvernig finna skuli fjárfesta og fjármagnsleiðir
  • 94% aðspurðra fyrirtækja voru tilbúin að skoða fjárfestingu erlendis frá
  • Meðaltals eignahlutur frumkvöðlanna sjálfra í fyrirtækjunum mældist 77%

Sjá meira hér:  http://nmi.is/frettir/2014/11/koennun-um-adgengi-ad-fjarmagni-og-fjarfestingaleidum-loegd-fyrir-sprota-og-nyskoepunarfyrirtaeki/


Sprotar stefna á fjölgun starfsmanna

04. nóvember 2013

Frumkvöðlar og sprotar á Íslandi hafa mikla trú á eigin viðskiptahugmyndum og telur mikill meirihluti að líklegt sé að fjölga þurfi starfsmönnum á næsta ári, samkvæmt nýlegri vefkönnun meðal frumkvöðla- og sprotafyrirtækja. Um 73% svarenda telja líklegt að starfsmönnum muni fjölga á næsta ári á meðan 25,4% telja að starfsmannafjöldinn muni standa í stað og 1,59% að þeim muni fækka. Könnunin var framkvæmd í ágúst síðastliðnum og send út til 144 frumkvöðla- og sprotafyrirtækja, sem skráð eru á upplýsingaveitu nýsköpunarfyrirtækja,http://www.sprotar.is/, sem er í umsjá Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Svarhlutfallið reyndist 45,14%.

 Sprotar - fjölgun starfsfólks

Starfsfólki sprotafyrirtækja hefur fjölgað

Alls sögðust tæp 54% svarenda hafa bætt við sig starfsfólki á síðastliðnu ári. Tæp 40% kváðust ekki hafa bætt við sig fólki og 6,35% sögðu að starfsfólki hafi fækkað. Þegar spurt var út í tegund starfa, sögðu tæp 73% störf hafa aukist við þróun vöru og/eða tækni og rúm 24% við sölu og þjónustu við viðskiptavini. Starfsmannafjöldi frumkvöðla- og sprotafyrirtækjanna í úrtakinu er á bilinu einn til fimmtíu, en langflest fyrirtækjanna eru með starfsmannafjölda á bilinu frá einum og upp í tíu talsins.

Flestir sprotar á vöruþróunarstiginu

Flest fyrirtækin, sem svöruðu eða rúm 54%, eru stofnuð eftir árið 2005 og langflestir aðspurðra eða 90,74% skilgreina fyrirtækið sitt sem sprotafyrirtæki.  Flest fyrirtækjanna eru í upplýsingatækni eða tæp 67%, en þó nokkur frumkvöðla- og sprotafyrirtæki telja sig tilheyra fleiri atvinnugreinum líka. Meirihluti sprota telur sig vera á vöruþróunarstiginu, ýmist að þróa vöru eða tækni. Tæp 66% fyrirtækjanna eru í eigu frumkvöðlanna sjálfra og langflestir eða um 80% svaranda hafa stundað viðskipti erlendis.

Fyrirtækin á http://www.sprotar.is/

Í stuðningsumhverfi frumkvöðla á Íslandi er gjarnan talað um ung og lítil fyrirtæki í nýsköpun sem sprota. Þá er vitnað í það að sproti sé vísir að einhverju sem getur vaxið og dafnað með tíð og tíma. Á síðunni www.sprotar.is eru tekin saman þau fyrirtæki, sem talið er að séu enn á sprotastiginu til þess að gefa almenningi og hluteigandi aðilum almenna sýn yfir stöðu mála í umhverfi sprota í dag. Listinn á síðunni er í stöðugri þróun og til að byrja hefur hann verið einskorðaður við vaxandi fyrirtæki í rannsóknum og þróun eða leiðandi tæknifyrirtæki í sinni grein. Jafnframt þarf hvert fyrirtæki að uppfylla ákveðin skilyrði sem finna má upplýsingar um á síðunni. Staða hvers fyrirtækis á listanum er endurskoðuð reglulega í samræmi við fyrirfram ákveðin skilyrði. Öll fyrirtækin á listanum eru með starfsstöðvar á Íslandi og starfa á íslenskri kennitölu. Þau vinna á einn eða annan hátt að nýsköpun í einhverri mynd, þ.e. fyrirtækin vinna við að skapa eða búa til eitthvað nýtt eða endurbæta það sem þegar er til staðar. Þetta getur jafnt átt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar.

Sprotar.is er ætlað að vera helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra með það fyrir augum að gera sprotafyrirtæki sýnilegri gagnvart hagsmunaaðilum í samfélaginu þ.m.t. gagnvart innlendum og erlendum fjárfestum.

 

Einnig má finna frétt um þetta hér: http://www.visir.is/90-prosent-sprotafyrirtaekja-gera-rad-fyrir-aukinni-veltu/article/2013710319925


 

Sprotar bjartsýnir á veltuaukningu

24. október 2013

Frumkvöðlar og sprotar á Íslandi eru bjartsýnir á fjárhagslega velgengi viðskiptahugmynda sinna, samkvæmt nýlegri vefkönnun meðal frumkvöðla og sprotafyrirtækja. Yfir 90% svarenda telja líklegt að velta þeirra muni aukast á næsta ári. Könnunin var framkvæmd í ágúst síðastliðnum og var send út til 144 frumkvöðla- og sprotafyrirtækja, sem skráð eru á upplýsingaveitu nýsköpunarfyrirtækja, http://www.sprotar.is/, sem er í umsjá Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Svarhlutfallið reyndist 45,14%.

Sprotar bjartsýnir á veltuaukningu

Þriðjungur nær 100 milljóna kr. ársveltu

Könnunin leiðir í ljós að um 55% fyrirtækjanna velta undir 50 milljónum króna á ári, þar af tæp 34% fyrirtækjanna undir 10 milljónum króna.  Hinsvegar sögðust rúm 37% svarenda ná veltu umfram 100 milljónir króna á ári. Alls 63,5% frumkvöðla- og sprotafyrirtækjanna kváðust hafa fengið fjárhagslega aðstoð að einhverju tagi, t.d. í formi styrkveitinga, en aðeins 44,4% sögðust hafa fengið aðra aðstoð en fjárhagslega, t.d. í formi handleiðslu og leiðsagnar. Slík aðstoð kom í 57,14% tilfella frá opinberum aðilum, í 53,57% tilfella frá einkaaðilum og í 21,43% tilfella frá öðrum.  Tæp 64% fyrirtækja höfðu sóst eftir fjárhagslegri aðstoð eða styrkjum án þess að fá úthlutun og tæpur þriðjungur fyrirtækjanna eða 31,25% höfðu fengið og nýtt sér aðstöðu á frumkvöðlasetri.

Meirihluti opinn fyrir fjárfestingaviðræðum

Þegar spurt var hvort sprotar væru opnir fyrir fjárfestingarviðræðum, svöruðu tæp 77% þeirri spurningu játandi, 12.5% neitandi og tæp 10,5% vildu ekki svara spurningunni.  Flest fyrirtækin, sem svöruðu eða rúm 54%, eru stofnuð eftir árið 2005 og langflestir aðspurðra eða 90,74% skilgreina fyrirtækið sitt sem sprotafyrirtæki.  Flest fyrirtækjanna eru í upplýsingatækni eða tæp 67%, en þó nokkur frumkvöðla- og sprotafyrirtæki telja sig tilheyra fleiri atvinnugreinum líka. Meirihluti sprota telur sig vera á vöruþróunarstiginu, ýmist að þróa vöru eða tækni. Tæp 66% fyrirtækjanna eru í eigu frumkvöðlanna sjálfra og langflestir eða um 80% svaranda hafa stundað viðskipti erlendis.

Fyrirtækin á http://www.sprotar.is/

Í stuðningsumhverfi frumkvöðla á Íslandi er gjarnan talað um ung og lítil fyrirtæki í nýsköpun sem sprota. Þá er vitnað í það að sproti sé vísir að einhverju sem getur vaxið og dafnað með tíð og tíma. Á síðunni eru tekin saman þau fyrirtæki, sem talið er að séu enn á sprotastiginu til þess að gefa almenningi og hluteigandi aðilum almenna sýn yfir stöðu mála í umhverfi sprota í dag. Listinn á síðunni er í stöðugri þróun og til að byrja hefur hann verið einskorðaður við vaxandi fyrirtæki í rannsóknum og þróun eða leiðandi tæknifyrirtæki í sinni grein. Jafnframt þarf hvert fyrirtæki að uppfylla ákveðin skilyrði sem finna má upplýsingar um á síðunni. Staða hvers fyrirtækis á listanum er endurskoðuð reglulega í samræmi við ákveðin skilyrði, sem sprotafyrirtækjum er sett að uppfylla. Öll fyrirtækin á listanum eru með starfsstöðvar á Íslandi og starfa á íslenskri kennitölu. Þau vinna á einn eða annan hátt að nýsköpun í einhverri mynd, þ.e. fyrirtækin vinna við að skapa eða búa til eitthvað nýtt eða endurbæta það sem þegar er til staðar. Þetta getur jafnt átt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar.

Upplýsingaveitunni Sprotar.is er ætlað að vera helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra með það fyrir augum að gera sprotafyrirtæki sýnilegri gagnvart hagsmunaaðilum í samfélaginu, þ.m.t.  gagnvart innlendum og erlendum fjárfestum.

 

 


 

 

Mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi

18. desember 2012

Fyrir nokkrum vikum síðan setti Nýsköpunarmiðstöð Íslands í loftið nýjan vef sem ætlað er að vera helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki. Viðbrögð við þessari nýjung á markaðnum hafa verið mjög góð og lofa viðtökur og aukning í skráningu nýrra fyrirtækja góðu um framtíðina. Listinn sýnir að það er mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi þar sem sprotafyrirtæki eru að vinna að nýjum og spennandi hlutum.

Sprotar.is

Nýsköpunarmiðstöð Íslands stendur ein að verkefninu en hugmyndin er að fá sem flesta aðila í stuðningsumhverfi sprota á Íslandi til að koma að því á einn eða annan hátt. Á síðunni er einnig tenging við Enterprise Europe Network (www.een.is) sem er stærsta tengslanet í heimi og aðstoðar lítil og meðalstór fyrirtæki að komast í erlend samstarf. Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir það verkefni á Íslandi í samstarfi við RANNÍS og Íslandsstofu. Hugmyndin með þessari tengingu er að vekja athygli íslenskra sprota á þessari leið á erlenda markaði en þjónustan er hluti af stuðningsumhverfi ríkisins við sprota og er gjaldfrjáls.

Við viljum auka sýnileika íslenskra sprotafyrirtækja

Meginmarkmið vefsins er að gera sprotafyrirtæki sýnilegri í samfélaginu. Almenningur, fjölmiðlar, stjórnmálamenn, fjárfestar og sprotarnir sjálfir geta á einum stað fengið ágæta yfirsýn yfir það hvað er að gerjast í þessum heimi. Þannig getur vefur sem þessi styrkt ímynd sprota og hjálpað til við að undirstrika mikilvægi þeirra fyrir íslenskt atvinnulíf og atvinnusköpun. Vefurinn er í sífelldri mótun en ákveðið var að fara hægt af stað og byggja vefinn upp á traustum grunni. Nú til að byrja með birtir vefurinn einungis lista yfir tæknifyrirtæki sem stunda rannsóknir og þróun að einhverju marki en með tímanum verður sú skilgreining mögulega víkkuð frekar. Öll fyrirtæki á listanum eru minni en hundrað manna vinnustaðir og er meirihlutinn með minna en þrjátíu manns í vinnu.

Viðtökur lofa góðu

Þjónustunni hefur verið afar vel tekið á þeim stutta tíma sem vefurinn hefur verið opinn. Margir forsvarsmenn sprotafyrirtækja og frumkvöðlar hafa lýst yfir ánægju sinni með vefinn og þar með framtakið. Fjölmörg ný fyrirtæki hafa sótt um aðgöngu ásamt því að koma með ábendingar um aðra áhugaverða sprota. Strax í fyrstu viku opnunarinnar voru á þriðja tug nýrra umsókna um að komast á vefinn.  Listinn á vefnum sýnir svo ekki verður um villst að það er mikil gróska í tæknigreinum á Íslandi þar sem sprotafyrirtæki eru að vinna að nýjum og spennandi hlutum. Listinn er opinn öllum án endurgjalds þeim sprotafyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði.

 

 


  

Sprotar.is - ný upplýsingaveita

15. október 2012

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur nú sett í loftið vefinn Sprotar.is - upplýsinga­veit­u sem er ætlað að vera helsti vettvangur upplýsingamiðlunar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsumhverfi þeirra. Vefurinn inniheldur gagnlegar upplýsingar um íslensk sprotafyrirtæki og starfsemi þeirra og hefur það að markmiði að gera sprotafyrirtæki sýnilegri gagnvart ólíkum hagsmunaaðilum í samfélaginu. Með þessu vill Nýsköpunarmiðstöð Íslands meðal annars auka skilning stjórnvalda á mikilvægi sprotafyrirtækja fyrir íslenskt atvinnulíf og atvinnusköpun, auka umfjöllun um fyrirtækin, gera þau sýnilegri gagnvart innlendum og erlendum fjárfestum og styrkja ímynd þeirra og mikilvægi hjá almenningi.  

Sprotar.is

Yfirlit fyrirtækja í örum vexti

Í stuðningsumhverfi frumkvöðla á Íslandi er gjarnan talað um ung og lítil fyrirtæki í nýsköpun sem sprota. Þá er vitnað í að sproti sé vísir að einhverju sem getur vaxið og dafnað með tíð og tíma. Á Sprotar.is er að finna yfirlit yfir þau fyrirtæki sem enn eru skilgreind sem sprotar og er ætlunin  með birtingunni að gefa almenningi og hluteigandi aðilum almenna sýn yfir stöðu mála í umhverfi sprota í dag. Fyrirtækjalistinn á síðunni er í stöðugri þróun og alls ekki tæmandi en til að byrja með er hann einskorðaður við íslensk lítil og meðalstór nýsköpunarfyrirtæki í í rannsóknum og þróun eða leiðandi tæknifyrirtæki í sinni grein. Fyrirtækin eru nú 135 talsins og fer fjölgandi en hægt er að sækja um að komast á listann á síðunni sjálfri.

Framtíðarsýn - stærsti og fjölsóttasti sprotavefur landsins

Ætlunin er að vefurinn verði með tímanum stærsti og fjölsóttasti vefur landsins þegar kemur að yfirsýn og upplýsingum um sprota-, og frum­kvöðla­fyrirtæki. Upplýsingaveitan verði þannig vel þekkt meðal ólíkra hagsmunaaðila, m.a. stjórnvalda, fjárfesta, fyrirtækja, fjölmiðla og almennings og veiti hverjum og einum viðeigandi upplýsingar. Þannig fái stjórnvöld og fjárfestar yfirsýn um umfang og eðli þeirrar starfsemi sem fyrirtækin eru í en slík miðlun getur átt þátt í að skapa hagstæðara laga-, skatta-, fjárfestinga- og stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtækin. Einnig er það von Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að upplýsingarnar hvetji almenning til aukinna framkvæmda á sviði rannsókna og þróunar og við stofnun og rekstur eigin fyrirtækja.

Fyrirtæki og einstaklingar eru hvattir til að heimsækja vefinn http://www.sprotar.is/ og skoða þær upplýsingar sem þar er að finna.  Vefurinn er lifandi þróunarverkefni sem kemur til með að breytast og byggjast upp með tímanum með hjálp allra þeirra sem áhuga hafa á sprotum og sprotafyrirtækjum.

  Stękka og minnka texta

Texti ķ sjįlfgefinni stęršTexti ķ mišlungs stęršTexti ķ stórri stęršAušlestrarhamur

Upplżsingamišstöšvar